Slapp naumlega er bremsurnar biluðu

Jeppinn fór fram af þverhnípi og er talið öruggt að …
Jeppinn fór fram af þverhnípi og er talið öruggt að ökumaður væri ekki til frásagnar hefði hann farið með. mbl.is/Helgi Garðarsson

Ökumanninum unga sem tókst að kasta sér út úr bíl skömmu áður en hann endaði ofan í djúpu gili í Slenjudal á milli Egilsstaða og Mjóafjarðar um áttaleytið í gærkvöldi segir að bremsur jeppans hafi bilað. Egill Stefán Jóhannesson er 17 ára nemi við Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupsstað.

„Ég var á leiðinni niður brekku þegar ég allt í einu stappaði bremsuna niður í gólf og ekkert gerðist,” sagði Egill Stefán í kvöldfréttum Sjónvarpsins.

Egill Stefán sagðist hafa náð fyrstu beygjunni eftir að bíllinn varð bremsulaus, hann hafi losað bílbeltið og að ekkert hafi gerst þegar hann tók í handbremsuna. „Þannig að ég ákvað bara að stökkva út úr bílnum,” sagði Egill Stefán.

Bíllinn mun einungis vera ársgamall og Egill Stefán sagðist hafa verið á um 40 km ferð er hann stökk út.

Síðar gekk hann uns hann komst í gsm samband og gat hringt eftir hjálp.

Tryggingafyrirtæki hans mun ætla að reyna að hífa bílinn með krana upp úr gilinu í kvöld.

Sjá má glitta í rauðan jeppann í vatninu.
Sjá má glitta í rauðan jeppann í vatninu. mbl.is/Helgi Garðarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert