Fyrrum ritstjórar DV dæmdir til að greiða miskabætur og sekt

Hús Hæstaréttar Íslands.
Hús Hæstaréttar Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur dæmt tvo fyrrverandi ritstjóra DV, þá Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, til að greiða Jónínu Benediktsdóttur 500 þúsund krónur í miskabætur fyrir að ganga á friðhelgi einkalífs hennar með umfjöllun í blaðinu. Þá voru þeir hvor um sig dæmdir til að greiða 150 þúsund króna sekt í ríkissjóð auk málskostnaðar.

Málið var höfðað vegna umfjöllunar DV um einkalíf Jónínu, sem birtist í blaðinu 26. september 2005. Ritstjórarnir fyrrverandi töldu að birting efnisins hefði verið vítalaus í skjóli tjáningarfrelsis þeirra sem efnið hefði staðið í beinum tengslum við opinbera umræðu, sem mikið fór fyrir á þessum tíma og tengdist svonefndu Baugsmáli. Upplýsingarnar í blaðagreininni hefðu því átt erindi til almennings.

Hæstiréttur segir, að með vísan til þeirrar ríku verndar, sem 1. málsgrein 71. gr. stjórnarskrárinnar veiti einkalífi manna yrði ekki séð hvaða erindi þessar viðbótarupplýsingar hefðu átt til almennings, enda hefði hvorki verið leitast við í fréttaflutningi DV að skýra gildi þeirra fyrir málefnið, sem til umræðu var í þjóðfélaginu, né hefðu ritstjórarnir fyrrverandi fært fyrir því haldbærar skýringar. Var því fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að Jónas og Mikael hefðu gengið nær einkalífi Jónínu en þörf var á og brotið með því gegn 229. grein almennra hegningarlaga.

1. málsgrein 71. greinar stjórnarskrárinnar er eftirfarandi:
Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

229. grein hegingarlaga er eftirfarandi:
Hver, sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er réttlæti verknaðinn, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert