Hæstiréttur nýtir ekki refsivaldið

Eftir Þórð Snæ Júlíusson - thordur@bladid.net

Hæstiréttur nýtti tæplega einn sjötta hluta þess refsiramma sem hann hefur í kynferðisbrotamálum á árunum 1999 til 2007 Mun þyngri dómar falla í fíkniefnamálum en fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn börnum. Samkvæmt almennum hegningarlögum er hægt að dæma menn í allt að sextán ára fangelsi fyrir nauðgun á Íslandi. Svo hörðum viðurlögum hefur þó aldrei verið beitt. Í síðustu viku sagði Blaðið frá því að óskilorðsbundnir fangelsisdómar Hæstaréttar í fíkniefnamálum væru að þyngjast. Með því að beita sömu aðferðafræði hefur Blaðið tekið út þróun dóma í kynferðisbrotamálum á tímabilinu 1999 til 2007.

Alls var 71 karlmaður dæmdur til 22,7 mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir kynferðisbrot að meðaltali í Hæstarétti á árunum 1999 til 2007. Hæstiréttur nýtti einungis tæplega einn sjötta hluta þess refsivalds sem dómstóllinn hefur samkvæmt lögum á þessu tímabili fyrir brot af þessu tagi. Engin kona hlaut dóm fyrir kynferðisbrot á umræddu tímabili.

Refsiramminn vegna fíkniefnabrota var þyngdur úr tíu árum í tólf hérlendis árið 2001. Sá sem hefur hlotið þyngstan dóm fyrir slíkt brot í Hæstarétti hlaut tíu ára fangelsi fyrir innflutning á rúmlega sextán þúsund etöflum, átta kílóum af kannabisefnum og lítilræði af öðrum efnum. Meðaltal þeirra óskilorðsbundnu dóma sem fallið hafa í Hæstarétti fyrir fíkniefnabrot er 36,9 mánuðir á árunum 1999 til 2007, eða rúm þrjú ár. Hlutfallsleg nýting refsirammans er því 25,6 prósent.

Refsiramminn fyrir kynferðisbrot gegn börnum er jafnhár og fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni. Hæstiréttur hefur hins vegar nýtt rammann mun betur í fíkniefnamálunum en í málum þar sem börn hafa þurft að þola nær daglegt kynferðislegt ofbeldi af hendi gerenda sinna, mörg þeirra svo árum skiptir. Innflytjendur fíkniefna hafa nefnilega verið dæmdir til þriðjungi lengri fangelsisvistar að jafnaði en þeir sem beita börn kynferðisofbeldi. Sömuleiðis er þyngsti dómurinn í fíkniefnamáli næstum helmingi lengri en sá þyngsti fyrir kynferðisbrot.

Fréttaskýring í Blaðinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert