Manneklu mætt með ráðningu eldri borgara í umönnunarstörf

Reykjavíkurborg vonast til þess að koma á móts við manneklu …
Reykjavíkurborg vonast til þess að koma á móts við manneklu með því að heimila að sjötugir og eldri verði ráðnir til starfa

Reykjavíkurborg er heimilt að ráða 70 ára og eldri til starfa í minnst 33% starfshlutfall í eitt ár í senn samkvæmt nýsamþykktri tillögu borgarstjóra í borgarráði. Skilyrði fyrir ráðningu er að í hvert sinn liggi fyrir svokallað starfshæfnisvottorð til staðfestingar á hæfni viðkomandi til starfa.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að með samkomulagi við yfirmann verður starfsmönnunum heimilt að inna vinnuskyldu sína af hendi á mismunandi tímum dags, viku mánaðar eða árs.Tveimur einstaklingum, hjónum eða vinum er heimilt að sinna vinnuskyldu eins starfsmanns.Hafi eldri starfsmaður en 65 ára starfað lengur en 10 ár hjá Reykjavíkurborg má draga úr vinnuskyldu hans um 20% (8 klst. á viku) án skerðingar mánaðarlauna til 70 ára aldurs.

Heimildin nær ekki til lífeyrisþega sem þiggja lífeyri úr B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eða Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga enda er það óheimilt skv. reglum þessara sjóða.

Eldri reglur veittu yfirmanni heimild til að endurráða starfsmenn eldri en 70 ára eftir að þeir höfðu látið af föstu starfi innan Reykjavíkurborgar í annað eða sama starf í lægra en 50% starfshlutfall án skerðingar lífeyris. Starfsmennirnir gátu fengið endurráðningu á sömu kjörum allt til 72 ára aldurs, samkvæmt tilkynningu.

„Með breytingunni vonast Reykjavíkurborg til að örva atvinnuþátttöku eldri borgara og koma til móts við manneklu í umönnunarstörfum innan borgarkerfisins. Ráðinn hefur verið verkefnisstjóri úr röðum eldri borgara til að tengja saman áhugasama eldri borgara og laus störf innan leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og heimaþjónustu borgarinnar. Farið verður yfir starfslýsingar og starfsaðstæður á áðurnefndum vinnustöðum með hag eldri borgara í huga," samkvæmt tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert