„Gjöf frá John og Yoko og íslensku þjóðinni til heimsbyggðarinnar“

Ringo Starr, Yoko Ono og Olivia Harrison í Viðey í …
Ringo Starr, Yoko Ono og Olivia Harrison í Viðey í kvöld. mbl.is/RAX

Kveikt var á friðarsúlu Yoko Ono í Viðey nú rétt fyrir klukkan átta í kvöld, að viðstöddum rúmlega 300 gestum. Í dag er afmælisdagur Johns Lennons, og er súlan tileinkuð honum. Við athöfnina söng kór íslenska þýðingu Þórarins Eldjárns á texta lagsins Imagine eftir Lennon.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri flutti ávarp og sagði m.a. að það væri mikill heiður fyrir Reykjavík að þetta friðartákn væri staðsett í borginni.

Yoko Ono sagði að friðarsúlan væri gjöf frá John og Yoko og íslensku þjóðinni til heimsbyggðarinnar.

Ringo Starr og Olivia, ekkja Georges Harrisons, voru viðstödd athöfnina ásamt Sean, syni Yoko og Johns Lennons. Áður en ljósið var tendrað stýrði Yoko athöfn þar sem hún bað alla viðstadda að segja I love you og tóku þau Ringo og Olivia þátt í því. Á meðan ljósið var tendrað var lagið Imagine eftir Lennon leikið.

Friðarsúla Yoko Ono er tær ljósgeisli sem streymir uppúr „óskabrunni“ sem er 4 metrar í þvermál og 2 metrar á hæð. Yfirborð brunnsins er þakið sérhönnuðu hvítu gleri sem þróað var í Japan með nýjustu efnatækni. Tilmæli Yoko Ono, Hugsa sér frið, eru grafin í glerið á 24 tungumálum.

Brunnurinn stendur á palli sem er 17 metrar í þvermál. Að tilmælum Yoko Ono er pallurinn þakinn þremur tegundum af íslensku grjóti – líparíti, grágrýti og blágrýti - sem lagt er á víxl í mósaík mynstur eftir forskrift íslensks hönnuðar. Yfirborði pallsins er skipt upp með sex „göngum.“ Við ytri enda ganganna eru leitarljós sem lýsa lárétt inn að óskabrunninum. Innan í brunninum mæta ljósgeislarnir speglum sem halla 45° og virka eins og strendingar sem varpa ljósinu upp. Speglarnir eru gerðir úr sérstöku efni sem tryggir 99,9% geislabrot.

Til viðbótar við speglana sex, eru níu kraftmikil, ítölsk leitarljós neðst í brunninum sem beina tærum ljósgeislanum beint upp á við. Þannig er friðarsúlan samansett úr 15 ljósgeislum.

Á hverju ári mun friðarsúlan lýsa frá 9. október, fæðingardegi Lennons, til 8. desember, dánardags hans. Einnig verður kveikt á ljósinu á gamlársdag, á jafndægri að vori þegar ljósið mun loga í viku og á sérstökum hátíðardögum sem Yoko og Reykjavíkurborg koma sér saman um. Rafmagnið í súluna er framleitt úr jarðhita og kemur frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Friðarsúlan lýsir upp kvöldhimininn.
Friðarsúlan lýsir upp kvöldhimininn. mbl.is/Björn A. Einarsson
Í Viðey í kvöld.
Í Viðey í kvöld. mbl.is/Golli
Fjöldi gesta var viðstaddur þegar kveikt var á friðarsúlunni í …
Fjöldi gesta var viðstaddur þegar kveikt var á friðarsúlunni í kvöld.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert