Dapurlegt að endurreistur R-listi sé kominn til valda

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. mbl.is/ÞÖK

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við fréttamann Sjónvarpsins nú síðdegis, að það væri skiljanlegt að menn væri vonsviknir vegna þess að það væri mjög dapurlegt að endurreistur R-listi með fjórum flokkum væri kominn til valda á ný vegna máls, sem hefði átt að vera hægt að leysa á málefnalegum forsendum milli borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

„Það er eitthvað annað og meira á bakvið þetta," sagði Geir og sagði ljóst að fleira en málefni Orkuveitu Reykjavíkur væri í spilunum.

Geir sagði, að þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefðu rætt saman nú síðdegis um þetta mál og þau væru sammála um að það ætti ekki að hafa áhrif á samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í ríkisstjórn landsins enda væri það samstarf mjög traust.

Geir sagðist óttast að nýtt meirihlutasamstarf bæri dauðann í sér þótt hann vonaði fyrir hönd borgarbúa að það næði árangri. Sagði hann að Framsóknarflokkurinn hefði þar leikið herfilega af sér og brugðist því trausti sem borið var til hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert