Áhugamálið orðið að aðalstarfinu

Aðalsteinn Ásgeirsson rafvirki, betur þekktur sem Steini í Svissinum, hefur haft áhuga á bílum svo lengi sem hann man eftir sér, í um fimmtíu ár eða svo. Hann segist telja að bílaáhuginn sé meðfæddur. "Ég er alveg viss um að bílaáhuginn er meðfæddur. Pabbi var reyndar bílaáhugamaður en það þurfti ekkert að ala áhugann upp í mér. Hann var alltaf til staðar. Ég sé þetta líka á barnabörnunum. Eitt þeirra hefur brennandi áhuga á bílum en hin hafa engan áhuga," segir Aðalsteinn sem á nokkra bíla. "Ég hef mikinn áhuga á fornbílum og á tvo Cadillac, eina Corvettu, einn Lincoln og einn Pacer. Heimilisbílarnir eru svo Pontiac Transporter og Cadillac ´92."

Eins og sjá má á bílavali Aðalsteins er Cadillac í miklu uppáhaldi hjá honum. "Þetta eru ósköp vandaðir bílar. Það er miklu meira lagt í þá heldur en aðra bíla enda voru þetta mjög dýrir bílar hér áður fyrr. Þá kostaði Cadillac á við þrjá Chevrolet," segir Aðalsteinn sem starfar við að gera upp bíla. "Ég var með bílarafmagnsverkstæði en mitt helsta áhugamál var gamlir bílar. Þegar ég var búinn að gera upp þrjá bíla þá varð það að mínu aðalstarfi og ég geri upp bíla enn þann dag í dag. Það er mjög fínt, nema það er einn ókostur. Þetta skemmir hálfpartinn fyrir mér áhugamálið því það er ekki eins mikil tilbreyting að leika sér í fornbílunum þegar maður er alltaf að vinna við þá. Ég gerði upp alla mína fornbíla sjálfur en ég geri þetta ekki það oft og ekki til að selja. Það tekur um það bil þrjú til fjögur ár að gera einn bíl upp. Það eru því ansi mörg kvöld sem fara í þetta því oft er vont að slíta sig frá þessu."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert