Skólastjórar segja ekki lengur hægt að halda úti lögboðinni kennslu

Skólastjórar segja ekki lengur hægt að halda úti lögbundnu skólastarfi …
Skólastjórar segja ekki lengur hægt að halda úti lögbundnu skólastarfi í Reykjavík. mbl.is/ÞÖK

Á fundi stjórnar Skólastjórafélags Reykjavíkur með skólastjórum í Reykjavík var samþykkt ályktun þar sem því er beint til menntaráðs Reykjavíkur að bregðast við því ástandi sem skólastjórar borgarinnar standi nú frammi fyrir þegar ekki sé lengur hægt að halda uppi lögboðinni kennslu.

Samkvæmt upplýsingum frá Skólastjórafélaginu lýsti hver skólastjóri á fætur öðrum ástandinu í sínum skóla og ljóst sé, að frekar illa hafi gengið að manna skólana nú í haust og framhaldið kvíðvænlegt. Á fundinum hafi einnig komið fram, að komið hafi upp skólaár áður þar sem illa hafi gengið að manna kennarastöður en nú geri skortur á vinnuafli það að verkum, að skólarnir séu ekki samkeppnishæfir í samanburði við mörg önnur störf í þjóðfélaginu. Kennarastarfið sé erfitt og því fylgi mikið álag og þegar launin séu lág sé freistandi fyrir kennara að hverfa til annarra starfa

Í ályktun fundarins segir, að ekki hafi tekist að manna skólana að fullu nú í haust. Brugðist hafi verið við því með aukinni vinnu kennara og annarra starfsmanna. Það hafi strax orðið ljóst, að lítið mætti út af bregða án þess að frekari vandræði sköpuðust. Veikindaleyfi, fæðingarorlof og uppsagnir kennara séu nú þegar farin að hafa áhrif á skólastarfið. Skólar auglýsi en enginn svari auglýsingum.

Þá er einnig vakin sérstök athygli á því hversu marga almenna starfsmenn vanti til starfa í grunnskólum borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert