VA arkitektar hlutu Íslensku byggingarlistarverðlaunin

Olga Guðrún Sigfúsdóttir, Ingunn Lillendahl og Sigríður Sigþórsdóttir frá VA …
Olga Guðrún Sigfúsdóttir, Ingunn Lillendahl og Sigríður Sigþórsdóttir frá VA arkitektum taka við verðlaununum úr hendi Geirs H. Haarde. mbl.is/Jón Svavarsson.

Íslensku byggingarlistarverðlaunin 2007 komu í dag í hlut VA arkitekta fyrir Lækningalind, Bláa lóninu. Geir H. Haarde forsætisráðherra afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum. Samhliða afhendingunni var opnuð sýning á þeim tíu verkefnum sem þóttu koma til greina.

Þetta er í fyrsta sinn sem þessi verðlaun eru veitt. Arkitektafélag Íslands stendur að verðlaununum en Þyrping hf., þróunarfélag á sviði skipulagsmála og mannvirkjagerðar, er bakhjarl þeirra.

Lækningalind Bláa lónsins er sjálfstæð viðbót við Heilsulind Bláa lónsins og rís upp úr úfnu mosavöxnu hrauni. Í umsögn dómnefndar segir: „Með öguðu efnisvali og formi hússins eru dregin fram skörp skil á milli geómetrískra forma byggingarinnar og lífrænna forma náttúrunnar sem vekja sterk hughrif. Sérkennilegt andrúmsloftið endurspeglast í óvæntum samsetningum og frágangi þar sem grænu gleri og dökkri hraunklæðningu er teflt gegn hlýlegum viði. Öll smáatriði eru leyst á vandaðan hátt sem fellur að yfirbragði heildarinnar.“

Geir H. Haarde forsætisráðherra fjallaði í ávarpi sínu um menningarstefnu í mannvirkjagerð sem íslensk stjórnvöld hefðu kynnt í fyrsta sinn á þessu ári og þá skyldu okkar sem þjóðar að hlúa að góðri byggingarlist og reisa mannvirki sem þjónuðu hlutverki sínu með sóma, væru vel gerð og hefðu listræn gildi að leiðarljósi. „Íslenskir arkitektar eru í lykilhlutverki við að koma slíkri stefnumótun í framkvæmd. Fátt er betur til þess fallið að hvetja alla til dáða á þessu sviði en að verðlauna það sem vel er gert og er fagnaðarefni að ákveðið hefur verið að efna til íslenskra byggingarlistarverðlauna.“

Oddur Víðisson, framkvæmdastjóri Þyrpingar, sagði varðveislu og þróun byggingarlistar vera hluta af menningu hverrar þjóðar og mikilvægt væri að hvetja til fjölbreytni, nýsköpunar og frumlegra lausna. „Ég vona að framlag okkar til þessara verðlauna efli enn frekar gæði hönnunar og framkvæmd mannvirkja. Einnig vonum við að verðlaunin skerpi vitund almennings um hve mikilvæg góð byggingarlist er fyrir samfélagið.“

Alls var 51 verkefni tilnefnt til verðlaunanna en miðað var við verkefni á íslenskri grundu; mannvirki, skipulag og ritverk um íslenska byggingarlist sem lokið hafði verið við frá ársbyrjun 2005 eða síðar. Valnefnd skipuð þremur arkitektum fór yfir tilnefnd verkefni. Valdi nefndin tíu sem þóttu koma til greina og fengu þau virðurkenningu. Þessi verk eru, auk Lækningalindarinnar: Aðalstræti 10, Reykjavík, sambýli fatlaðra við Birkimörk í Hveragerði, innsetning Gjörningaklúbbsins, göngubrýr yfir Hringbraut, skólahús við Háskólann á Akureyri, íbúðarhúsið Hof, Höfðaströnd, íbúðir við Frakkastíg, íþróttaakademían í Reykjanesbæ og viðbygging Safnasafnsins á Svalbarðseyri.

Lækningalind, Bláa lóninu.
Lækningalind, Bláa lóninu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert