Ásökunum verslunareiganda mótmælt af Akureyrarbæ

Bæjarstjóri Akureyrar, Sigrún Björk Jakobsdóttir, segir að eigandi verslunarinnar Síðu á Akureyri hafi haft allar upplýsingar um fyrirhugaðan flutning verslunarinnar vegna byggingaframkvæmda.

„Undanfarið hafa málefni verslunarinnar Síðu verið nokkuð í fréttum og þar hefur Höskuldur Stefánsson, eigandi verslunarinnar sakað Akureyrarbæ um mikið sambandsleysi og yfirgang varðandi brottflutning verslunarinnar vegna byggingarframkvæmda. Af því tilefni vill Akureyrarbær taka eftirfarandi fram.

Formleg samskipti um þetta mál hófust 21. ágúst 2006, þ.e. fyrir meira en ári síðan, með bréfi til Höskuldar og síðan hafa honum verið send fleiri bréf, gefinn andmælaréttur, fundað um málið með honum auk símtala við hann. Samskiptin og upplýsingastreymið frá Akureyrarbæ hafa því verið miklu meiri en Höskuldur hefur látið af í fjölmiðlum. Á þeim tíma sýndi Höskuldur málinu ágætan skilning og það var ekki fyrr en um miðjan ágúst sl. að andmæli bárust frá honum. Það er því ljóst að Höskuldur hafði á hverjum tíma allar upplýsingar um stöðu málsins varðandi brottflutning verslunarinnar og hafði næg tækifæri til að koma sínum andmælum á framfæri fyrr. Allar fullyrðingar Höskulds um hótanir og yfirgang Akureyrarbæjar eru því algerlega úr lausu lofti gripnar.

Það var því neyðarráðstöfun sem Akureyrarbær greip til í sept. sl. með beiðni sinni til héraðsdóms að mega fjarlægja húsið sem hafði samkvæmt samningum tímabundið stöðuleyfi. Héraðsdómari taldi hins vegar misræmi vera milli þessa tímabundna stöðuleyfis og ófrágenginnar lóðaúthlutunar frá 1984 og því ekki staða til að samþykkja beiðni Akureyrarbæjar. Akureyrarbær mun að öllum líkindum una þessum dómi og semja við viðkomandi aðila um þessi lóða- og húsamál," samkvæmt tilkynningu frá Akureyrarbæ sem Sigrún Björk ritar undir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert