Vetrarfrí að hefjast hjá þúsundum barna

Á morgun hefjast vetrarfrí í flestum grunnskólum í Reykjavík og standa þau yfir í þrjá daga. Þá munu um 15.000 börn fá frí frá hinu daglega skólaamstri. Framkvæmdastjóri Heimilis og skóla segir fríið vera hvatningu til foreldra um að verja tíma með börnunum sínum. Hún bendir þó á að ef svo megi verða sé mikilvægt að samfélagið allt, t.a.m. vinnuveitendur, sýni foreldrum skilning og stuðning.

Að sögn Bjarkar Einisdóttur, framkvæmdastjóra Heimilis og skóla, virðast sem allir skólar í Reykjavík taki sér vetrarfrí að undanskildum einum grunnskóla og einum einkaskóla. Hún bendir jafnframt á að tímasetningin sé misjöfn eftir sveitarfélögum, en víða eru vetrarfrí hafin. Þá segir hún ljóst að vetrarfrí hafi jákvæð áhrif á börnin.

Björk segir að samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Heimili og skóli gerði á heimasíðu sinni gera um 90% allra foreldra ráð fyrir vetrarleyfum barna sinna. Þau skipuleggi þar af leiðandi gjarnan sín frí í samræmi við vetrarleyfin í skólanum með því að skilja eftir nokkra daga af sumarfríinu.

Vefur Heimilis og skóla

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert