Borgarráð samþykkir að hafna samruna REI og Geysis Green

Svandís Svavarsdóttir ræðir við fréttamenn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.
Svandís Svavarsdóttir ræðir við fréttamenn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt tvær tillögur stýrihóps, sem myndaður var til að fjalla um samruna Reykjavik Energy Invest og Geysir Green Energy. Tillögurnar eru annars vegar um að hafna samruna félaganna og hafna 20 ára einkaréttarsamningi REI við Orkuveitu Reykjavíkur. Hins vegar um að Orkuveita Reykjavíkur gangist undir ýtarlega stjórnsýsluúttekt.

Stjórn Orkuveitunnar er falið að framkvæma þessar tillögur og ekki er tekin afstaða til þess hvernig OR eigi að fara að þessu.

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG, sem fer fyrir stýrihópnum, sagði að hópurinn muni halda áfram störfum og verkefni hans yrði fyrst og fremst að draga lærdóm af því sem gerst hefði.

Svandís sagði, að þverpólitísk samstaða hefði verið um þessa niðurstöðu sem væri sögulegt.

Aðspurð um hugsanlega skaðabótaábyrgð sagði Svandís hugsanlegt að einhverjir sætti sig ekki við þessa niðurstöðu en sagðist vænta þess að fjárfestar sæju að þetta væri skynsamlegasta niðurstaðan.

Samkvæmt tillögunni um innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gera stjórnsýsluúttekt á Orkuveitu Reykjavíkur. Þar verði farið yfir hvort ábyrgð og hlutverk stjórnar, stjórnenda og starfsmanna séu skýr, endurspeglist í skipuriti og samræmist rekstrarlegri umsýslu og ábyrgð. Þá verði farið yfir hvernig Orkuveitan hafi staðið að stofnun félaga og hvernig eftirliti með slíkum félögum sé háttað. Loks verði lagt mat á fyrirkomulag innra eftirlits.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert