Stórtapaði á að þiggja bætur eftir slys

Tekjutengingar urðu til þess að milljónir hurfu frá öryrkja. Hafnfirðingurinn Guðmundur Ingi Kristinsson rakti sögu sína frá því hann fékk fjórar milljónir í bætur fyrir nokkrum árum vegna tekjutaps eftir umferðarslys. Milljónirnar fjórar rýrnuðu heldur betur á næstu árum, hurfu á endanum allar og niðurstaða Guðmundar Inga er sú að hann hefði stórgrætt á að sleppa bótunum frekar en þiggja þær.

„Tryggingafélagið dró bætur Tryggingastofnunar aftur í tímann frá tjónabótunum sem ég átti rétt á. Þar fóru átta hundruð þúsund, en einnig var dreginn frá skattur upp á 1,2 milljónir. Þá voru tvær milljónir eftir. Ekki fékk ég að halda þeim, því þegar upphæðin, 3,2 milljónir fyrir skatt, fór inn á skattskýrsluna, dró Tryggingastofnun af mér eina milljón vegna teknanna. Þá var ein milljón eftir af þeim fjórum sem ég fékk frá tryggingafélaginu. Ekki fékk ég að halda henni, skatturinn komst að því að öryrkinn ég væri hátekjumaður og tók af mér barnabætur með fjórum börnum og vaxtabætur vegna húsnæðisláns!"

Guðmundur Ingi segir sér hafa ofboðið í þetta skipti eins og mörg önnur. Helst vill hann að Tryggingastofnun verði lögð niður og allar hennar hörmulegur reglur og að byrjað verði upp á nýtt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert