Kerfisbundið haft áhrif á verðkannanir

Hróar Björnsson, fyrrverandi rekstrarstjóri Krónunnar, segir stjórnendur Krónunnar vísvitandi hafa áhrif á útkomu verðkannana sem gerðar eru í verslunum hennar með kerfisbundnum hætti. Hann hafi sjálfur tekið þátt í því meðan hann starfaði þar. Hróar starfaði sem rekstrarstjóri hjá Krónunni árið 2005, þegar verðstríð geisaði milli Krónunnar og Bónuss. Áður hafði hann starfað hjá 10-11 í níu ár.

„Árið 2005 var brugðið á það ráð að fara í verðstríð við Bónus til að auka fjölda viðskiptavina og fá umfjöllun í fjölmiðlum, svo gengu lækkanir hægt og rólega til baka. Þetta er gert annað slagið til að fjölga viðskiptavinum,“ segir Hróar Björnsson, fyrrverandi rekstrarstjóri Krónunnar.

„Þegar verðkannanir voru í gangi fór af stað full vinna við að breyta verðum meðan verðkannanaliðið var inni í búðinni. Svo voru þau látin ganga tilbaka eftir ákveðinn tíma,“ segir Hróar sem segir frá því að hægt sé að láta tölvukerfi breyta verðinu sjálfvirkt á ákveðnum tímum og með tilkomu rafrænna hillumiða sé það auðvelt í framkvæmd.

Verð hækkað sjálfkrafa fram eftir degi
„Ég get nefnt að tiltekinn ostur sem kostaði 149 krónur klukkan tvö á föstudegi hækkaði sjálfkrafa í 169 krónur klukkan fjögur og hækkaði svo enn frekar eftir því sem nær dró lokunartíma. Þannig hélst verðið yfir helgina og lækkaði aftur á mánudegi. Við vorum öryggir um að verðkannanaliðið væri ekki á ferðinni á þessum tímum,“ segir Hróar, sem segir verðvitund viðskiptavina heldur ekki vera mikla seinni partinn á föstudögum.

„Á tímabili var veittur 5% viðbótarafsláttur á ost- og mjólkurvörum við kassa í Krónunni sem var auglýstur sérstaklega. Bónus auglýsti sama afslátt en kom samt alltaf betur út úr verðkönnunum á þessum vörum. Þegar við fórum að athuga þetta betur, þá voru þeir að veita 2,5% meiri afslátt leynilega á kassa á ákveðnum tímum. Þannig komu þeir alltaf betur út úr verðkönnunum en Krónan. Að þessu komumst við ekki fyrr en við fórum og keyptum þarna sjálfir oststykki.“ Þannig segir hann Bónus hafa blekkt stjórnendur Krónunnar og þá sem gerðu verðkannanir.

Telur beint verðsamráð ekki til staðar
Hróar telur hins vegar að beint verðsamráð milli Krónunnar og Bónuss sé ekki til staðar. „Ég tel að það sé ekki samráð milli Bónuss og Krónunnar. Verðið hjá þeim helst samt í hendur. Bónus er til dæmis með ákveðið verð á vöru. Svo svarar Krónan því og Bónus lækkar sig krónu neðar og heldur sig þar. Verðið helst bara þannig óbreytt í langan tíma. Það verður eins konar þegjandi samkomulag um verð,“ segir hann og leggur áherslu á að engin bein eða óbein samskipti milli starfsmanna Bónuss og Krónunnar hafi verið til staðar. Eins telur hann ólíklegt að svo sé í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert