Jólafötin tekin í tollinum

Neytendasamtökin gagnrýna reglur um leyfilegt verðmæti hluta, sem keyptir eru í útlöndum og koma má með inn í landið án þess að greiða af þeim tolla og virðisaukaskatt. Einstakur hlutur má ekki kosta meira en 23 þúsund krónur og ekki má kaupa inn fyrir meira en 46 þúsund krónur samtals.

Í jólabæklingi Magasin í Danmörku má sjá síðkjóla sem flestir kosta milli 30 og 40 þúsund krónur. Jakkar bæði á konur og karla eru ekki undir 25 þúsundum. Algeng innkaup Íslendinga fyrir jólin rúmast því ekki innan reglnanna.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, telur upphæðirnar lágar: „Mér finnst stjórnvöld ekki hafa verið nógu dugleg að hækka þessa tölu, stundum hefur þetta dregist aftur úr og ég myndi gjarnan vilja sjá hana hærri."

Jóhannes segir að verslunarferðir Íslendinga til útlanda sýni að neytendum séu boðin betri kjör þar en hér. "Væri þessi upphæð hærri mundi slík verslun veita íslenskri verslun aðhald og knýja verð niður," segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert