Lenti aftur á Egilsstaðaflugvelli eftir að olíuþrýstingur í öðrum hreyfli féll

Lent var á Egilsstöðum uppúr kl. 21 og gekk lendingin …
Lent var á Egilsstöðum uppúr kl. 21 og gekk lendingin að óskum mbl.is/Aðalsteinn Sigurðarson

Mikill viðbúnaður var á flugvellinum á Egilsstöðum þegar Fokker 50 flugvél Flugfélags Íslands sneri við til Egilstaða á leið sinni til Reykjavíkur í kvöld. Vélin fór í loftið um kl. 20:30 með 38 farþega innanborðs en skömmu eftir flugtak missti vélin olíuþrýsting á öðrum hreyfli og var því ákveðið að slökkva á honum í samræmi við vinnureglur, auk þessa fór jafnþrýstingur af farþegarými vélarinnar.

Í kjölfar þessara bilana ákvað flugstjóri vélarinnar að snúa við aftur til Egilsstaða þar sem mun styttra var þangað en til Reykjavíkur, samkvæmt upplýsingum frá Flugfélagi Íslands.

Lent var á Egilsstöðum uppúr kl. 21 og gekk lendingin að óskum og eftir að farþegar voru komnir aftur í flugstöðina á Egilsstöðum fór flugstjóri vélarinnar yfir atvikið með farþegum auk þess sem þeim var boðin áfallahjálp.

Farþegar tóku þessu atviki með mikilli stillingu auk þess sem áhöfn vélarinnar var þakkað fyrir fagmannleg vinnubrögð með lófataki að loknum útskýringum flugstjóra, segir Flugfélag Íslands..

Engin hætta myndaðist við þetta atvik enda flugvélar af þessari tegund byggðar til að geta flogið á öðrum hreyfli en í samræmi við vinnureglur voru slökkvilið, lögregla og björgunarsveitir í viðbragðsstöðu á flugvellinum við lendingu.

Önnur vél Flugfélags Íslands mun fara frá Akureyri til Egilsstaða til að ná í farþegana og má gera ráð fyrir að hægt verði að fara í loftið að nýju frá Egilsstöðum um kl. 23 í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert