Geir: Eigum að reyna að fá samþykkt nýtt íslenskt ákvæði

Þjóðir heims stefna að því að draga verulega úr losun …
Þjóðir heims stefna að því að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Reuters

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að hann teldi að Íslendingar eigi að freista þess að fá samþykkt svonefnt íslenskt ákvæði í nýjum samningi um losun gróðurhúsalofttegunda, sem gildi á árunum 2013-2020. Fulltrúar Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins fögnuðu þessari yfirlýsingu en þingmenn VG gagnrýndu hana harðlega.

Geir sagði, að ríkisstjórnin muni eftir sem áður leggja mikla áherslu á að metnaðarfull markmið náist á næstu árum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda enda stæði heiminum ógn af loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Geir var að svara fyrirspurn frá Valgerði Sverrisdóttur, þingmanni Framsóknarflokks, um hver væri stefna ríkisstjórnarinnar hvað varðaði svokallað „íslenskt ákvæði“ í Kyoto-bókuninni um losun gróðurhúsalofttegunda.

Geir sagði, að árið 2001 hefði verið samþykkt sérstök ákvörðun um takmarkaða heimild til losunar koldíoxíðs í litlum hagkerfum í verkefnum sem notuðu endurnýjanlega orku við stóriðju. Þessi heimild snéri ekki að Íslandi sérstaklega þótt hún hefði verið nefnd íslenska ákvæðið.

Geir sagði, að nú væru framundan mikilvægar viðræður um nýjan samning um losun gróðurhúsalofttegunda, sem tæki við þegar Kyoto-bókunin rennur út. Á næsta aðildarríkjafundi Kyoto-bókunarinnar í Bali í desember yrði væntanlega fjallað aðallega um að skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda taki til fleiri ríkja en nú er.

Geir sagði, að ekki hefði verið mótuð stefna innan ríkisstjórnarinnar um málið, enda væri það ótímabært. Hann væri hins vegar þeirrar skoðunar, að Íslendingar eigi að freista þess að fá aftur samþykkt íslenskt ákvæði að lokinni næstu samningalotu fá samþykkt íslenskt ákvæði á grundvelli sérstöðu sinnar til að viðhalda sveigjanleika og takmarka ekki möguleika fyrirfram.

Geir sagði, að starfshópi fjögurra ráðherra hefði verið falið að móta samningsmarkmið Íslands í þessum viðræðum og einnig hefði verið sett á stofn sérstök sérfræðinganefnd, sem ætti að skila tillögum að mögulegum aðgerðum Íslendinga að daga úr losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2013-2020.

Valgerður Sverrisdóttir sagðist fagna þessari yfirlýsingu Geirs en sagði greinilegt að ekki væri samstaða um þessi mál innan ríkisstjórnarinnar því Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, hefði nýlega sagt að ekki yrði sóst eftir undanþágu. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, lýsti einnig ánægju og sagðist telja að ekki væri um að ræða undanþágu frá þeim markmiðum að draga úr losun gróðurhúsaáhrifa heldur útfærsla á leiðum að því marki.

Þær Kolbrún Halldórsdóttir og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmenn VG, lýstu hins vegar algerri andstöðu við yfirlýsingu Geirs. Sagði Guðfríður Lilja, að það yrði Íslendingum til skammar að fá samþykkta slíka undanþágu þar sem þeir væru nú þegar fyrir ofan Evrópumeðaltal í losun gróðurhúsalofttegunda og stefni enn hærra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert