Tannlæknar sætta sig ekki við verðlagseftirlit TR

Tannlæknafélag Íslands segir í ályktun, að það sætti sig ekki við að opinber stofnun, Tryggingastofnun ríkisins, sem jafnframt er samningsaðili félagsins taki einhliða að sér „verðlagseftirlit“ með almennri samkeppnis gjaldskrá tannlækna. Tryggingastofnunin komi auk þess aðeins að styrkveitingu 20% tannlæknareikninga.

Fram kemur í ályktun stjórnar félagsins, að það hafi ákveðið að gera sérhverjum tannlækni kleift að birta gjaldskrá sína á heimasíðu félagsins á einfaldan og aðgengilegan hátt. Vonist til að með þessu verði endir bundinn á deilur og misskilning um verðlagningu og samkeppni innan tannlæknastéttarinnar.

Þá átelur stjórnin, að Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki í fjórtán ár komið í veg fyrir meint tryggingasvik, þrátt fyrir að stofnunin telji að slíkt mál hafi legið ljóst fyrir allan tímann. Stjórn TFÍ telji óþolandi að allan þennan tíma hafi Tryggingastofnun ríkisins haldið því fram að tryggingasvik innan tannlæknatrygginga hafi verið mikil og almenn. Stofnunin hafi þannig á ábyrgðarlausan hátt rýrt traust almennings á tannlæknum og lækningum þeirra án þess að hafa til þess nokkrar forsendur. Þessar endalausu árásir á tannlækna séu þannig aðeins byggðar á einu máli sem hefur verið fjórtán ár í skúffum stofnunarinnar. Máli sem enn sjái ekki fyrir endann á.

Í ályktuninni segir, að Tannlæknafélagið leggi sig fram um að upplýsa almenning um tannlækningar og beiti sér gegn tryggingasvikum og óheiðarlegum vinnubrögðum. Enn fremur kalli félagið eftir samvinnu við sjúklinga og hagsmunafélög um að bæta tannheilsu þjóðarinnar, heilsu sem fari ört hrakandi.

Heimasíða Tannlæknafélags Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert