Guðni: Forsætisráðherra er daufur og sinnulaus

Guðni sagði í ræðu sinni að forsætisráðherra væri daufur og …
Guðni sagði í ræðu sinni að forsætisráðherra væri daufur og sinnulaus. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Á miðstjórnarfundi framsóknarmanna sem nú fer fram í Ketilhúsinu á Akureyri, fór Guðni Ágústsson yfir þau þjóðþrifa- og framfaramál sem framsóknarmenn hafa staðið fyrir s.l. 90 ár og sagði hann þann tíma sem framsóknarmenn stóðu í brúnni vera lengsta og mesta framfaraskeið þjóðarinnar.

Guðni sagði að Í síðasta ríkisstjórnarsamstarfi með sjálfstæðismönnum hafi framsóknarmenn farið með atvinnumál og að sá tími væri varðaður árangri og framförum. Guðni nefndi sérstaklega uppbyggingu á Austurlandi og jafnframt Orkuveitu Reykjavíkur sem nú er eitt framsæknasta fyrirtæki þjóðarinnar.

Hann tiltók sérstaklega að með orkuauðlindir þjóðarinnar þurfi að fara gætilega, nýting og náttúruvernd séu systur í hans huga og Landsvirkjun hafi kynnt tímamótaákvörðun í gær, þegar kynnt var að fyrirtækið myndi ekki framleiða rafmagn til frekari stóriðjuupbyggingar á Suðurlandi, heldur einbeita sér að annars konar orkufrekum iðnaði, svo sem netþjónabúum.

Guðni minnti svo á að Íslendingar standi í fremstu röð hvað varðar nýtingu endurnýjanlegra orku. Þar sé hlutfall á Íslandi 70% þegar ESB stefnir að því að ná 20% marki árið 2020.

Guðni Ágústsson gerði efnahagsstjórn landsins að umtalsefni í ræðu sinni, þar sem hann sagði að verkefni stjórnvalda væri um þessar mundir að stíga fast á bremsurnar. Framsóknarmenn hefðu tekið slík verkefni alvarlega í gegnum tíðina en Guðni lýsti áhyggjum af ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar. Hann segir forsætisráðherra daufan og sinnulausan og hann varist að hafa skoðanir á nokkrum málum, líklega sé það vegna samstarfsins við Samfylkingu.

Samfylkingin hafi til langs tíma skilgreint sig og sinn flokks sem höfuðandstæðing sjálfstæðismanna en hafi verið fljót að hverfa frá því þegar von var á því að hún kæmist til valda.

Hann sagði að það ríki ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar, Samfylking vilji greina sig frá Sjálfstæðisflokknum en andrúmsloftið sé annað, það sé raunveruleg hætt á ferðum og ríkisstjórnin sé ekki líkleg til þess að takast á við stóra verkefnið sem snýr að efnahagsmálum.

Efnahagsmálin rædd
Hann hélt áfram að ræða efnahagsmálin. Hann sagði offar stórfyrirtækja hættulegt og að þau þurfi að gá að sér . Þróun húsnæðismarkaðarins sé mjög varhugaverð því offramboð á fasteignamarkaði auk innrásar bankanna á fasteignalánamarkað hafi skapað þenslu sem geri heimilinum í landi mjög erfitt fyrir. Mikilvægast sé að unga fólkið hafi aðgang að lánum með lágum vöxtum til langs tíma til íbúðakaupa.

Einnig að húsnæði, vatn og rafmagn eigi að vera á kostnaðarverði með hagsmuni fólksins að leiðarljósi og nýjasta útspil í bankakerfinu sé hættulegt fólkinu. Guðni sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa reynt að koma sök á þenslu á íbúðalánamarkaði yfir á Framsóknarmenn og nefnt þar 90% lánin sem ástæðu.

Það viti þó allir að innrás bankanna inn á þann markað hafi verið tilraun til að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef til að sitja einir að kökunni. Nú hafi komið í ljós að þar voru menn ekki með hagsmuni fólksins í landinu að leiðarljósi. Guðni hvatti Íslendinga alla til að standa vörð um Íbúðalánasjóð, hann sé kjölfesta fyrir fólkið í landinu og hann harmar að ríkisstjórnin sporni ekki við fæti í málinu. Vaxtastigi þurfi að ná niður í landinu því skuldir fólksins og fyrirtækjanna séu miklar.

Guðni tilkynnti að framsóknarmenn muni á komandi misserum taka til sérstakrar skoðunar söðu gjaldmiðilsins og krónunnar, sem ekki verði kastað á einni nóttu. Raunar gagnrýndi Guðni viðskiptaráðherra fyrir að tala íslensku krónuna niður eins og hann hefur gert að undanförnu.

Þá munu framsóknarmenn taka til sérstakrar skoðunar íbúalýðræði og neytendamál. Framsóknarmenn munu kalla til sitt fólk út verkalýðshreyfingunni og af vettvangi neytendamála til að leiða þá umræðu. Framsókn stendur með alþýðu landsins
Guðni ræddi sérstaklega sölu bankanna á sínum tíma. Hann sagði það aldrei ætlan framsóknarmanna að sala bankanna drægi úr samkeppni. Hann ræddi sérstaklega siðferði og sagði að það sneri ekki eingöngu að baráttu kirkjunnar. Það snúi að okkur öllum og við þurfum að berjast fyrir bættu siðferði og jöfnuði. Ofurlaun rjúfi samstöðuna sem einkennt hefur íslenskt samfélag og í komandi kjarasamningum þurfi að bæta kjör þeirra sem minnst hafa. Ef það kostar breytingar á skattkerfinu, þá séu framsóknarmenn tilbúnir til að berjast fyrir því en flokkurinn muni hér eftir sem hingað til tekið okkur stöðu með alþýðu landsins.

Pólitískar hreinsanir
Guðni ræddi einnig um pólitískar "hreinsanir" út úr fyrirtækjum og stofnunum að afloknum kosningum, þar sem góðu og heiðarlegu fólki hafi verið kastað út úr verkefnum sem það hafði eytt löngum tíma í að byggja upp eingöngu vegna þess að vera framsóknarmenn. Slíkt sé óásættanlegt og framsóknarmönnum sjálfum hafi aldrei dottið slíkt í hug, þrátt fyrir að hafa staðið frammi fyrir sama veruleika.

Ósanngjarn málflutningur Morgunblaðsins
Guðni sagði að framsóknarmenn kveinki sér ekki undan gagnrýni en í umræðunni hafi skotleyfi verið gefin út á framsóknarmenn, sem hafi særst og margir fælst frá flokksstarfinu. Vissulega þurfi athafnamenn aðhald, í hvaða flokki sem er en framsóknarmenn þoli allan samanburð við athafnamenn úr öðrum flokkum. Nefndi Guðni sérstaklega málflutning Morgunblaðsins, málgagns Sjálfstæðisflokksins í því samhengi. Það hafi með ósanngjörnum hætti flutt sitt mál gagnvart framsóknarmönnum.

Að lokum sagði Guðni að framsóknarmenn myndu einbeita sér að flokksstarfinu framundan. Flokkurinn eigi að vera 25% flokkur á Íslandi. Guðni finnur örla á bjartsýni og trú. Átök undanfarinna ára séu að baki og menn horfi bjartsýnir fram á við. Grasrótin sé framsóknarmönnum sérstaklega mikilvæg því tækifærin séu ærin. Íslensk þjóð viti að enginn flokkur er jafn vel til þess fallinn að takast á við þrengingar eins og Framsóknarflokkurinn sem sýnt hefur og sannað með verkum sínum að hann sé traustsins verður. Það sanni sagan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert