Sjötta þykkasta veskið

Íslendingar hafa sjöttu hæstu ráðstöfunartekjur á mann í Evrópu, um 1,8 milljónir á ári eftir skatta. Íbúar Sviss, að Liechtenstein meðtöldu, Lúxemborgar, Noregs, Írlands og Danmerkur eiga meira í veskinu þegar ríkið hefur fengið sitt.

Þetta er niðurstaða þýska markaðsrannsóknafyrirtækisins GfK GeoMarketing, sem kom út í gær. Í fyrra var Ísland í fimmta sæti listans, en Írland hefur stokkið upp fyrir Ísland og Danmörku. Þar hafa tekjur snarhækkað en skattar eru fremur lágir.

„Gott ef satt er, sem ég rengi ekki," segir Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins. „En gömul meðaltalsumræða um hátekjur segir ekkert um hag þeirra sem búa við lægst kjör. Kökunni er ekki rétt skipt og langur vinnutími er á bak við íslensk laun, fjórðungi lengri en á Norðurlöndum. Við borgum líka dýrasta mat í Evrópu og fleiri neysluþættir eru miklu hærri hér en þekkist annars staðar."

Skúli segir skattkerfið á Norðurlöndum notað til tekjujöfnunar en hér sé það notað til að hygla þeim sem mest hafi. „Okkar markmið í komandi kjarasamningum er að leiðrétta misréttið og beita skattkerfinu rétt. Ekkert tilefni er til að slá af kröfum fyrir þá sem verst hafa kjör."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert