Falið að leita sátta í dómsmáli OR og Svandísar

Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur
Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur mbl.is/Sverrir

Hjörleifi Kvaran, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, var á eigendafundi OR í kvöld falið að leita sátta í dómsmáli Orkuveitu Reykjavíkur og Svandísar Svavarsdóttur, borgarfulltrúa. Staðfest var á fundinum að falla frá samþykktum um samruna Reykjavik Energy Invest og Geysis Green Energy.

Á fundi borgarráðs Reykjavíkur í dag var einnig samþykkt að leita sátta í málinu enda hafi málsaðilar ekki lengur hagsmuni af niðurstöðu slíks máls.

Svandís höfðaði málið til að fá ógiltan eigendafund Orkuveitunnar í byrjun október þar sem samþykkt var að sameina Reykjavik Energy Invest og Geysi Green Energy. Var málið rekið á þeirri forsendu, að ekki hefði verið löglega boðað til fundarins. Málið hefur verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur og við fyrirtöku fór Orkuveitan fram á að málinu yrði vísað frá. Málflutningur um kröfuna er á dagskrá á mánudag.

Sjálfstæðismenn í borgarráði sátu hjá við afgreiðslu tillögunnar um dómsmálið í dag og létu bóka, að heillavænlegra væri að gefa dómsstólum tækifæri til að kveða upp sinn dóm um það hvort eigendafundurinn hafi verið lögmætur eða ólögmætur, en borgarráð og Svandís Svavarsdóttir grípi ekki fram fyrir hendur dómstóla hvað þetta varðaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert