Ölvaður farþegi henti bílstjóranum út og ók sjálfur í bæinn

Lögreglan þarf að taka á ýmsum málum.
Lögreglan þarf að taka á ýmsum málum. mbl.is/Júlíus

Ölvuðum farþega í bíl á leið frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur í nótt þótti ekki nógu greitt ekið og brá á það ráð að henda ökumanninum út og aka sjálfur í bæinn. För hans varð þó endaslepp því að við komuna til borgarinnar greip lögreglan hann og stakk í steininn, þar sem hann situr enn, nú í morgun.

Ökumaðurinn sem neitað hafði að auka hraðann að kröfu hins ölvaða sat aftur á móti eftir einn og yfirgefinn í Þrengslunum, en mun þó hafa bjargast til byggða.

Að öðru leyti segir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að verkefni sín í nótt hafi verið hefðbundin. Sex voru teknir fyrir brot á lögreglusamþykkt, fjórir fyrir akstur undir áhrifum áfengis, tveir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og einn undir áhrifum annarra lyfja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert