Svandís tilbúin til sátta í dómsmálinu

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG í borgarstjórn, segir að hún sé tilbúin til sátta í máli hennar gegn Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem hún hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af dómsúrskurði eftir ákvörðun eigendafundar OR í gær að hafna samruna Reykjavik Energy Invest við Geysi Green Energy, en krafa Svandísar var að sú ákvörðun fyrri eigendafundar OR þar að lútandi yrði dæmd ógild.

Borgarráð samþykkti í gær með 4 atkvæðum að leita sátta í málinu þar sem aðilar hafi ekki lengur hagsmuni af niðurstöðu málsins. Svandís segir að sátt í málinu muni snúast um að viðurkennt verði að fyrri eigendafundurinn hafi verið ólögmætur.

Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu OR málinu er ráðgerður í Héraðsdómi á morgun.

Svandís sagði að sættir væru rökrétt niðurstaða eins og málið væri komið nú. Hún hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af niðurstöðunni. Hins vegar hefði hún gjarnan viljað fá dómsúrskurð varðandi lögmæti eigendafundarins, þar sem þarna sé á ferðinni ákveðið grundvallaratriði hvað varði stöðu almennings gagnvart kerfinu og hvernig ákvarðanir þar séu teknar. „Ef sáttin hins vegar felur í sér viðurkenningu á því að eigendafundurinn hafi verið ólögmætur þá er Orkuveita Reykjavíkur búin að fallast á það og þar með að slíkt verði ekki endurtekið. Ég lít svo á að það sé fullnaðarsigur fyrir mig þegar búið er að taka í raun og veru allar ákvarðanir í málinu til baka. Þá er í raun og veru ekkert eftir af minni kröfu,“ sagði Svandís.

Sigur almennings

Hún sagðist líta svo á að hér væri fyrst og fremst um sigur almennings að ræða. Hún hefði verið ein í þessari baráttu til að byrja með, en veður hefði skjótt skipast í lofti. „Það var einhvern tímann sagt að vika væri langur tími í pólitík og það sannaðist svo sannarlega í þessu tilviki,“ sagði Svandís.
Í hnotskurn
» Eigendafundur Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti að sameina REI og GGE á fundi sínum 3. okt. sl., en hvarf frá þeirri ákvörðun á fundi á föstudag.
» Svandís höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til þess að fá ákvörðun eigendafundarins dæmda ógilda.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert