Höfum of mikið fyrir lífsgæðunum

„Þetta segir okkur einfaldlega að við höldum ekki nægilega vel á spöðunum og höfum of mikið fyrir lífsgæðunum," segir Stefán Ólafssson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, um þá staðreynd að Ísland er í 18. sæti yfir lönd með mesta landsframleiðslu á klukkustund, en í 5. sæti OECD- ríkja hvað varðar mesta landsframleiðslu á mann.

Stefán segir landsframleiðslu á klukkustund vera mun betri mælikvarða á lífskjör þjóðar og skipan efnahagsmála en landsframleiðslu á mann. „Ef við værum öll í þrælabúðum með 80 stunda vinnuviku gætum við eflaust kýlt upp framleiðsluna á mann. En lífskjörin yrðu hins vegar töluvert verri fyrir vikið. Rannsóknir hafa sýnt fram á sterkt samband á milli langs vinnutíma og lítillar framleiðslu á klukkustund, enda eykur vinnulengd þreytu starfsmanna og dregur þannig úr nýtingu á vinnustundum," segir Stefán.

Sem dæmi leiddi yfirvinnubann hér á landi á níunda áratugnum í ljós að hægt var að ná sömu afköstum á styttri vinnutíma, og stytting hámarksvinnutíma í Frakklandi virðist ekki hafa leitt til minni landsframleiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert