BA hættir flugi til Íslands

LUKE MACGREGOR

British Airways mun hætta áætlunarflugi sínu milli Keflavíkur og Lundúna 28. mars 2008 þegar vetraráætlun félagsins lýkur á flugleiðinni. Peter Rasmussen, viðskiptastjóri flugfélagsins fyrir Skandinavíu og Ísland, með aðsetur í Kaupmannahöfn, segir í fréttatilkynningu það vera mjög erfiða ákvörðun að þurfa að hætta áætlunarflugi milli landanna.

„Við höfum starfrækt þessa leið síðan í lok mars 2006 eða í um tuttugu mánuði. Því miður hefur flugleiðin ekki reynst nægilega ábatasöm og þar sem við störfum í afar hörðum en viðkvæmum alþjóðlegum samkeppnisheimi verðum við að tryggja að allar flugleiðir standi undir sér og haga okkur í samræmi við það,“ segir Peter Rasmussen.

Haft verður samband við viðskiptavini sem bókað hafa flug með British Airways til og frá Keflavík eftir 28. mars 2008. Verður þeim boðin breyting á bókun eða full endurgreiðsla farseðilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert