Sjónvarpsfréttatímar á mbl.is

Mbl.IS verður frá og með deginum í dag með léttara yfirbragði og fleiri þjónustuþáttum fyrir þá 130 þúsund notendur sem heimsækja vefinn dag hvern. Nýtt útlit sem blasir við þeim hefur það að markmiði að gera hann þægilegri aflestrar og auðvelda aðgang að því efni sem þar er að finna.

Breytingarnar sem nú hafa verið gerðar á vefnum eru unnar af starfsmönnum netdeildar mbl.is í samvinnu við erlenda og innlenda sérfræðinga. Auk þessara breytinga á framsetningu bætist við ný þjónusta, útsendingar á sjónvarpsfréttatíma á mbl.is.

Meginbreytingar á útliti og framsetningu eru eftirfarandi:

Fyrir ofan haus allra vefhluta á mbl.is er nú leitarbox þar sem hægt er að leita á Google, Emblu og í símaskrá, en einnig er hægt að leita í fréttum sem birst hafa á mbl.is. Í sömu línu eru einnig tenglar á RSS-þjónustu og hlaðvarp og hægt er að minnka og stækka letur og breidd vefsíðunnar.

Efst til hægri á forsíðu mbl.is er nýr rammi með sjónvarpsefni mbl.is, innlendum og erlendum myndskeiðum, og þar birtist sjónvarpsfréttatími hvers dags, en einnig er ýmislegt annað sjónvarpsmyndefni aðgengilegt. Sjónvarpsfréttatíminn kemur nýr inn rétt fyrir hádegi á hverjum degi, milli 11:30 og 12:00, og verður síðan uppfærður eftir því sem nýjar fréttir eru unnar.

Fyrir neðan sjónvarpsrammann efst til hægri er liðurinn „Helstu fréttir“, en þar verður að finna hverju sinni þær fréttir sem hæst ber á þeim tíma sem vefurinn er opnaður. Þetta gefur notendum færi á að sjá í sjónhendingu hvað efst er á baugi.

Efst til vinstri á mbl.is eru nú tenglar á þjónustu- og leitarvefi mbl.is. Þar er því að finna tengil á fasteignavef mbl.is, smáauglýsingavef, atvinnuvef, bílavef, leitarvélina Emblu og á greina- og myndasafn Morgunblaðsins. Einnig er þar tengill á Sviðsljósið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert