Fékk ekki að sjá nýfæddan son sinn strax

„Ég vaknaði úr svæfingu klukkan korter fyrir níu og spurði strax um barnið. Þá var mér sagt að ég mætti ekki sjá það fyrr en klukkan tólf. Fyrst hélt ég bara að þau væru að rugla eitthvað," segir kona sem þurfti að bíða í þrjá klukkutíma eftir að sjá barnið sitt í fyrsta skipti en hún hafði verið svæfð og barnið tekið með bráðakeisaraskurði. Ástæðan var stofugangur lækna á vökudeild, en meðan á honum stendur mega foreldrar ekki vera hjá börnunum sínum.

„Það versta er að ég var seinna uppi á vökudeild meðan á stofugangi stóð," segir hún og bætir við að allir sem hún bað um að fá að hitta barnið hafi þá haft sömu sögu að segja. Læknir, ljósmóðir og starfsfólk á sængurkvennadeild sögðu henni að hún yrði að bíða.

Ragnheiði Sigurðardóttur, deildarstjóra á vökudeild, kemur þessi saga konunnar mjög á óvart. „Það er ævinlega þannig þegar konur fæða á þessum tíma sem lokað er vegna stofugangs, að þá er bara komið með konurnar í rúmunum hingað á vökudeildina." Starfsmaður á sængurkvennadeild sem 24 stundir höfðu samband við sagði sömu sögu. Konum væri yfirleitt fylgt á vökudeild um leið og þær væru tilbúnar til þess. Aðrir viðmælendur blaðsins í heilbrigðiskerfinu sögðust hins vegar kannast við svipuð dæmi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert