Gert að hreinsa upp glerbrotin

Veggjakrot er hvimleitt og spjöll á eignum.
Veggjakrot er hvimleitt og spjöll á eignum. mbl.is/Brynjar Gauti

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nótt afskipti af þremur piltum sem höfðu brotið flöskur í Hlíðunum. Þegar leitað var eftir skýringum á athæfi þeirra var fátt um svör en á þeim mátti helst skilja að þetta hefði verið gert í gamni.

Lögreglan skammaði piltana og þeir voru síðan látnir fjarlægja öll glerbrotin eftir sig. Þegar allt var orðið hreint á ný var þeim leyft að halda ferð sinni áfram.

Um hádegisbil í gær var unglingspiltur staðinn að veggjakroti í strætisvagni í Háaleitishverfi og var lagt hald á tvo úðabrúsa og tússpenna sem hann var með í fórum sínum. Pilturinn var líka með myndavél meðferðis og hafði tekið myndir af öðru veggjakroti.

Síðdegis í gær hafði lögreglan afskipti af nokkrum krökkum í Kópavogi sem voru að kasta snjóboltum í bíla. Litlu mátti muna að einn ökumannanna sem fyrir þessu varð missti stjórn á bílnum sínum en framrúðan í bíl hans brotnaði og því er um nokkurt tjón að ræða. Haft var samband við foreldra krakkana og farið yfir málið sem lögregla segist líta alvarlegum augum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert