300 milljónir til hverfistengdra verkefna í Reykjavík

Samþykkt var í borgarráði í dag tillaga borgarstjóra þar sem lagt var til að allt að 100 milljónum króna verði varið til hverfistengdra verkefna árlega næstu þrjú ár. Til stendur að stofna 300 milljóna króna sjóður, forvarna- og framfarasjóður Reykjavíkurborgar í þessu skyni.

Sjóðnum er ætlað að veita styrki til verkefna sem unnin eru á hverfagrunni og stuðla að auknum árangri í forvarnarstarfi, uppbyggingu félagsauðs, bættri umgengni, auknu öryggi og markvissara samstarfi Reykjavíkurborgar og frjálsra félagasamtaka í hverfunum undir samhæfingu og stjórn þjónustumiðstöðva.

Ætlunin er að reglur sjóðsins verði útfærðar og byggðar á forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar. Hverfaráð auglýsi eftir hugmyndum að verkefnum eða hafi frumkvæði að þeim í samvinnu við þjónustumiðstöðvar sem bera ábyrgð á samhæfingu forvarnarstarfs í hverfum samkvæmt forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar.

Verkefnatillögur hverfisráða verða metnar af ráðgjafahópi með sérþekkingu á forvörnum og félagsauði. Að fengnu mati ráðgjafahópsins geri borgarstjóri tillögur til borgarráðs um styrki úr sjóðnum. Úthlutun verður tvisvar á ári, í apríl og nóvember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert