Íslenskur listamaður í fangelsi í Toronto

Þórarinn Ingi Jónsson með „sprengjuna.
Þórarinn Ingi Jónsson með „sprengjuna."

Lögreglan í Toronto í Kanada handtók í gærkvöldi íslenskan listamann, Þórarinn Jónsson, í kjölfar þess að gjörningur hans í listasafni í borginni olli uppnámi. Hann kom fyrir eftirlíkingu af sprengju í safninu og var hluti þess rýmdur í kjölfarið og nærliggjandi götum lokað.

Þórarinn, sem er 24 ára og stundar listnám í borginni, gaf sig fram við lögregluna ásamt lögmanni sínum í gærkvöldi og sat í varðhaldi í nótt. Í dag mun hann væntanlega koma fyrir dómara.

Gabbið olli því m.a. að aflýst var góðgerðarsamkomu sem um 2.500 manns hafði verið boðið á til styrktar AIDS-rannsóknastofnun Kanada, en um er að ræða árlega samkomu sem er helsta fjáröflunarleið stofnunarinnar.

Samkvæmt fréttum kanadískra blaða á hann yfir höfði sér ákærur fyrir óspektir á almannafæri og fleira. Honum mun ennfremur hafa verið vikið úr skólanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert