Svipuð laun og á Norðurlöndum

Launakostnaður hér á landi, reiknaður í evrum, er mjög svipaður og annars staðar á Norðurlöndum. Aftur á móti er hann hærri en að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins. Þetta eru niðurstöður skýrslu sem hagdeild ASÍ tók saman um launakostnað á Íslandi.

Launakostnaður hér á landi, reiknaður í evrum, er mjög svipaður og annars staðar á Norðurlöndum, að því er segir í skýrslu ASÍ. Hann er þó í efri kantinum og fylgjum við Dönum og Svíum fast eftir. Iðnaður sker sig þó úr en þar er launakostnaður umtalsvert lægri hér á landi en víðast á Norðurlöndum og er rétt yfir óvegnu meðaltali samanburðarlandanna.

Iðnaðurinn sker sig úr

Af viðmiðunarlöndunum má almennt segja að launakostnaður sé mestur í Hollandi, Belgíu og á Norðurlöndunum að Finnlandi undanskildu, en minnstur er hann í Eystrasaltsríkjunum, Póllandi, Rúmeníu og Búlgaríu.

Launakostnaður á vinnustund í iðnaði er 35 evrur í Hollandi, Þýskalandi og Danmörku. Hann er 30 evrur á Íslandi, en 5 evrur í Litháen og 2 evrur í Búlgaríu.

Launakostnaður á vinnustund í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð er hæstur á Íslandi og Danmörku eða 34 evrur. Hann er 31 evra í Noregi og 30 evrur í Svíþjóð og 27 evrur í Bretlandi.

Aðeins Danmörk og Svíþjóð eru með hærri launakostnað á vinnustund í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu, en þar er hann 30 evrur á Íslandi. Sama á við um launakostnað í samgöngum og flutningum. Þar er Ísland í þriðja sætið á eftir Danmörku og Svíþjóð.

Gengi krónunnar leikur stórt hlutverk í samanburði á launakostnaði.

Krónan styrktist um 7,4% gagnvart evru frá 2. ársfj. 2006 til 2. ársfj.

2007, sem þýðir að miðað við óbreyttan launakostnað í íslenskum krónum hækkaði launakostnaður sem nemur styrkingu krónunnar.

Ef gengi krónunnar hefði verið í 125 stigum á 2. ársfj. 2007 hefði launakostnaður hér á landi verið 2,4% lægri en ella.

Í skýrslunni segir að skýring á háum launakostnaði hér á landi sé m.a. langur vinnutími. Á þetta sérstaklega við um byggingariðnað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert