Utanríkisráðherra sækir fund EFTA

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á ráðherrafundinum í Genf.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á ráðherrafundinum í Genf. AP

Í dag tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra þátt í reglulegum ráðherrafundi EFTA sem fram fór í Genf. Meginefni fundarins voru fríverslunarsamningar við önnur ríki, stöðumat og forgangsröðun.

Í framhaldi af sameiginlegri hagkvæmniathugun EFTA-ríkjanna og Indlands, þar sem hvatt er til að hefja fríverslunarviðræður milli ríkjanna, samþykktu ráðherrarnir fyrir hönd EFTA að hefja slíkar viðræður. Taki indversk stjórnvöld í sama streng er vonast til að viðræður geti hafist snemma á næsta ári. Þetta kemur fram á vef utanríkisráðuneytisins.

Ráðherrarnir ákváðu að skrifað verði undir fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Kanada í byrjun næsta árs.

Ákveðið var að auka samstarf á sviði viðskiptamála við Rússland og Úkraínu og að hefja fríverslunarviðræður við þessi ríki, svo fljótt sem verða má, eftir að þau hafa fengið aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Jafnframt lýstu ráðherrarnir áhuga á að hefja fríverslunarviðræður við Indónesíu og að dýpka samskiptin við Malasíu á sviði viðskipta.

Ráðherrarnir lýstu einnig ánægju með upphaf viðræðna við Alsír og gang viðræðna um fríverslunarsamninga við Kólumbíu og Perú, og við ríki Flóabandalagsins (Barein, Kúveit, Óman, Katar, Sádí-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmin). Vonast er til að samningaviðræðum við þessi ríki ljúki á næsta ári. Ákveðið var að hefja fríverslunarviðræður við Albaníu og Serbíu. Stefnt er að því að taka að nýju upp samningaviðræður við Tæland, í kjölfar þingkosninga sem fara munu fram fara þar í landi seinna í þessum mánuði.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert