Tekjur maka skerði ekki bætur

Ráðherrarnir fimm kynna aðgerðir til að bæta kjör öryrkja.
Ráðherrarnir fimm kynna aðgerðir til að bæta kjör öryrkja. mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja en aðgerðirnar verða lögfestar á vorþingi.  Þ.á.m. á að afnema skerðingu tryggingarbóta vegna tekna maka frá og með 1. apríl. Áætlaður kostnaður vegna þessa er talinn nema 1350 milljónum á næsta ári og 1,8 milljörðum á heilu ári.

Þá verður frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67 til 70 ára hækkað í allt að 100.000 kr. á mánuði frá 1. júlí nk. Frítekjumarkið er í dag 25.000 á mánuði. Jafnframt mun ríkissjóður tryggja að ellilífeyrisþegar fái að lágmarki 25.000 kr. á mánuði frá frá lífeyrissjóði 1. júlí nk.

Aðgerðir sem skila öryrkjum sambærilegum ávinningi verða undirbúnar í tenglsum við starf framkvæmdanefndar um örorkumat og starfsendurhæfingu. Áætlaður kostnaður er 1.000 milljónir kr. árið 2008 og 2.000 milljónir á heilu ári. 

Skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar verður afnuminn frá 1. janúar 2009. Áætlaður kostnaður er um 30 milljónir kr.

Kostnaðurinn vegna þessara aðgerða er talinn nema 2700 milljónum kr. á næsta ári og 4300 milljónum á heilu ári. Samanlagt nemur því heildarkostnaður vegna ákvarðana núverandi ríkisstjórnar til að bæta kjör aldraðra og öryrkja um fimm milljörðum á ári.

Aðgerðirnar kynntu þau Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra og Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra. 

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert