Annríki hjá björgunarsveitum

Björgunarsveitarmenn í Strandgötu í Hafnarfirði í gærkvöldi.
Björgunarsveitarmenn í Strandgötu í Hafnarfirði í gærkvöldi. mbl.is/Frikki

Lögreglunni á Suðurnesjum bárust 23 tilkynningar vegna hvassviðris í gærkvöldi og í nótt. Þá bárust hátt í 100 tilkynningar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Af þessum tilkynningum, sem bárust lögreglunni á Suðurnesjum, voru þrjár frá Grindavík, tvær frá Sandgerði en hinar tilkynningarnar voru tengdar Reykjanesbæ. Björgunarsveitirnar Suðurnes, Þorbjörn og Sigurvon komu til aðstoðar vegna veðurs en mikið af lausamunum hafði fokið til.  Það sem fauk til var m.a. fiskikör, þakplötur, ruslatunnur stór grindverk og jólaskraut.

Í Ásahverfinu í Njarðvík fauk 20 feta gámur á hliðina og rann hann talsverðan spöl. Hafsögubáturinn í Keflavík losnaði frá bryggju, björgunarsveitarmenn ásamt lögreglu náðu að festa bátinn aftur. Í Keflavík færðust tvær bifreiðar til í rokinu. Í Njarðvík fauk hjólhýsi á hliðina.

Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var mikið um útköll vegna foks frá kl. 23 í gærkvöldi. Ástandið var sérstaklega slæmt á nýbyggingarsvæðum í Kópavogi og Hafnarfirði og tókust hlutir á loft sem höfðu ekki verið festir kyrfilega niður. Trampólín, járnplötur, jólatré, bílar, svalahurðir, skottlok, auglýsingaskilti, fiskikör og girðing er á meðal þess sem fauk í nótt. Svo um klukkan tvö í nótt var óveðrið gengið yfir að mestu.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu fór í níu útköll vegna foks í nótt. Þegar mest lét voru þrír hópar á vegum slökkviliðsins úti í einu. Að sögn varðstjóra stóðu aðgerðirnar ekki lengi yfir eða í rúman hálftíma, enda gekk veðrið hratt niður og því slotaði á öðrum tímanum í nótt á Suður- og Vesturlandi. Engan sakaði í óveðrinu að sögn SHS.

Sömu sögu var að segja í Borgarfirði í gærkvöldi og í nótt. Veginum undir Hafnarfjalli var lokað um tíma í nótt en þar mældist vindhraðinn yfir 60 metrum á sekúndum í hviðum. Þá sinntu björgunarsveitarmenn mörgum útköllum vegna foks. Að sögn lögreglu sluppu hjón með lítið barn naumlega eftir að timbur af vinnupalli fór inn um rúðu hjá þeim í veðurofsanum. 

Ekki liggur fyrir með tjón eftir óveðrið en það mun koma betur í ljós þegar á líður daginn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert