Sérstaða íslenskra háskóla vanmetin?

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. mbl.is

Fjallað er um íslenska háskóla og sterka stöðu kvenna innan þeirra í breska blaðinu Guardian í dag. Fram kemur í greininni að níu háskólar séu á Íslandi en að þeir þyki ekki hafa skýra sérstöðu á alþjóðavettvangi. Það einkenni þá hins vegar hversu hátt hlutfall stjórnenda séu konur og því sé sérstaða þeirra hugsanlega vanmetin.

Fjallað er um störf Svöfu Grönfeldt, rektors Háskólans í Reykjavík, í greininni og þá stefnu hennar til tryggja körlum og konum við skólann sömu laun. „Þetta er ögrandi verkefni,” segir hún. „Á Íslandi höfum við sömu innbyggðu kynjamismununina og á öðrum Vesturlöndum.” Þá segist hún hafa verið það heppin að hafa getað tileinkað sér jafnréttisviðhorf í raun á sínum fyrri vinnustað og að hún hafi reynt að nýta sér það er hún tók við stjórn Háskólans. „Þegar bæði karlar og konur sitja í stjórnum fyrirtækja fær maður annars konar samræður og önnur sjónarhorn. Lausnir kvenna eru oft óvæntar og nýstárlegrar,” segir hún.

Einnig er talað við Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, og Margréti Jónsdóttur, forstöðumann alþjóðasviðs Háskólans í Reykjavík, í greininni. Kristín segir þar m.a. mikilvægt að konur í háskólasamfélaginu gefi kost á sér til stjórnunarstarfa. Það sé bæði mikilvægt fyrir þær sjálfar og kvenkyns nemendur þeirra sem eignist við það sterkar fyrirmyndir.

„Það er sérstakt hvað við höfum marga kvenstjórnendur þar sem einungis 20% prófessora við háskólann eru konur," segir hún. „Þær njóta greinilega trausts og eru valdar af samstarfsfólki sínu."

Svafa segir það þó ekki einungis skila faglegum árangri að hafa bæði konur og karla í stjórnunarstöðum háskóla heldur skili það einnig fjárhagslegum ávinningi. 

Bent er á það í greininni að sú skoðun hennar sé í samræmi við niðurstöður samanburðar bandaríska fyrirtækisins Catalyst á afkomu 353 bandarískra stórfyrirtækja en samkvæmt þeim skila fyrirtæki sem hafa konur í stjórnum meiri langtímahagnaði en fyrirtæki þar sem einungis karlar sitja í stjórnum.

 Greinina í Guardian má lesa á slóðinni: http://education.guardian.co.uk/higher/news/story/0,,2225347,00.html

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert