Alvarlegar bilanir í flutningskerfi Landsnets

mbl.is/Brynjar Gauti

Í nótt sem leið urðu alvarlegar bilanir og rekstrartruflanir á flutningskerfi Landsnets þegar djúp lægð gekk yfir vestanvert landið með ofsaveðri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti.

Um kl.1:40 leysti 132 kV Vatnshamralína 1 (Vatnshamrar – Brennimelur) út með þeim afleiðingum að spennir fór út í aðveitustöðinni í Laxárvatni við Blönduós auk þess sem einn skáli Fjarðaáls á Reyðarfirði fór út. Við það einangraðist Fljótsdalsstöð frá kerfinu. Þá fór í stuttan tíma út um 20 MW álag hjá almennum notendum á Austurlandi. Við þetta fór einnig út 132 kV Hólalína 1 (Teigarhorn – Hólar við Höfn) og báðar vélar fóru út í Kröflustöð. Í tengslum við þessa truflun á vesturvæng kerfisins fór einnig út 66 kV Laxárlína 1 (Laxá – Rangárvellir á Akureyri).

Ekki er vitað um ástæðu þess að Vatnshamralína 1 fór út en leiða má að því líkum að um samslátt á vírum hafi verið að ræða enda ofsaveður á svæðinu. Línan fór inn aftur um kl.3:13 og er í rekstri.

Um kl 2:33 varð alvarleg bilun í 220 kV Brennimelslínu 1 (Geitháls – Brennimelur) þegar turn nr. 115 í Þyrilsnesi í innanverðum Hvalfirði brotnaði undan veðurofsanum. Um er að ræða stagað stálgrindarmastur. Við þetta fóru út skáli 2 hjá Norðuráli í Hvalfirði, álag fór út hjá Ísal í Straumsvík og allt álagið hjá Járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði. Auk þessa fóru úr rekstri allar vélar í virkjun Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði.

Þá fór 132 kV Hrútatungulína 1 (Hrútatunga – Vatnshamrar) úr rekstri um kl. 3.10 með þeim afleiðingum að rafmagnslaust varð víða á Vesturlandi. Þessi rekstrartruflun stóð þó aðeins yfir í nokkrar mínútur.

Loks ber að geta að alvarleg bilun varð um kl 4:30 í 132 kV Geiradalslínu 1 (Glerárskógar – Geiradalur) þegar tvær tréstæður nr. 203 og 204 brotnuðu við Gilsfjörð í Saurbæ.

Starfsmenn Landsnets hafa unnið að viðgerð Brennimelslínu 1 í Hvalfirði og Geiradalslínu 1 í Saurbæ frá því í nótt ásamt með verktökum. Viðgerð verður hraðað eins og kostur er en ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hvenær þeim verður lokið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert