Fríhöfnin lokuð vegna 300 fullra útlendinga

mbl.is/Sverrir



„Það er búið að loka fríhöfninni að tilmælum lögreglunnar," sagði Borgar Jónsson, vaktstjóri í fríhöfninni í Leifsstöð. Lokað var á áfengissölu klukkan hálffimm í gær, en samkvæmt heimildum 24 stunda voru töluverðar óspektir í flugstöðinni meðal útlendinga sem voru að öllum líkindum á leiðinni heim í jólafrí. Flug lá niðri í gær svo að sumir höfðu setið að sumbli frá klukkan fimm um morguninn.


Borgar í fríhöfninni lét ástandið ekki á sig fá og var pollrólegur. „Það er mikið af Pólverjum hérna, svona 300," sagði hann. „Það er ekkert vesen, en þeir eru búnir að drekka mikið. Þeir eru rólegir hérna frammi og það er einn og einn sofnaður - bara eins og við værum ef við værum í útlöndum.


Eyjólfur Kristjánsson, hjá lögreglunni á Suðurnesjum, sagði að aðgerðirnar hefðu verið fyrirbyggjandi. „Menn eru búnir að bíða eftir flugi frá því snemma í morgun og farið að bera á ölvun á svæðinu," sagði hann. „Þá er ákveðið ástand úti fyrir og það fara engar flugvélar. Það er ekki hægt að láta fólk vera svo ofurölvi að það geti ekki flogið."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert