Ekkert athugavert við félag

Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra.

„Við þetta er nákvæmlega ekkert að athuga," segir Geir H. Haarde, forsætisráðherra um stofnun nýs dótturfélags Landsvirkjunar, Landsvirkjun Power. Fyrirtækinu er m.a. ætlað að taka þátt í orkutengdum útrásarverkefnum.

„Nú er fyrirtækið að koma þeim verkefnum fyrir í þessu nýja fyrirtæki, Landsvirkjun Power, jafnframt því að fela því fyrirtæki verkefni á sviði framkvæmda hér innanlands."

Spurður hvort stofnun LP samræmist stefnu Sjálfstæðisflokksins bendir Geir á að hún sé í takti við það sem fram komi í landsfundarályktun flokksins og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. „Hins vegar er ekki sama hvernig að þessu er staðið," segir hann. Ranglega hafi verið staðið að stofnun Reykjavík Energy Invest sl. haust og það hafi sjálfstæðismenn gagnrýnt.

„Ríkið á Landsvirkjun. Það hefur ekki verið stemmning fyrir þeirri hugmynd sem ég hreyfði einu sinni, að selja hluta af Landvirkjun, t.d. til lífeyrissjóða. Á meðan svo er, og það er stefna Sjálfstæðisflokksins, verður þetta fyrirtæki að athafna sig innan þess ramma sem fylgir því að vera ríkisfyrirtæki," sagði Geir m.a.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert