Gert að vinna fyrir 317 kr. á tímann

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú til rannsóknar mál nokkurra erlendra félagsmanna sinna. Samkvæmt nýlegum ráðningarsamningi sem verkalýðsfélagið hefur undir höndum er dagvinnukaup starfsmannsins  635 kr. á tímann. Hins vegar kemur fram í ráðningarsamningnum að starfsmanninum sé skylt að vinna fyrsta mánuðinn til reynslu á 50% launanna, sem gerir 317 kr. á tímann.

Á vef verkalýðsfélagsins kemur fram að starfsmennirnir hafa veitt félaginu fullt og ótakmarkað umboð til að gæta sinna hagsmuna gagnvart vinnuveitanda sínum.

Starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness hafa fundað með erlendu starfsmönnunum að undanförnu og aflað gagna. Segir á vef félagsins, að samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum og fyrirliggjandi gögnum liggi fyrir að hér er um mjög alvarleg brot að ræða.

Einn starfsmaður fyrirtækisins tjáði starfsmönnum VLFA að á síðasta ári hefði hann unnið í þrjá og hálfan mánuð án þess að fá nein laun fyrir. Hann fékk einungis frítt fæði og húsnæði á þessu tímabili. Starfsmaðurinn stóð í þeirri trú að þetta væri eðlilegt þar sem hann væri að læra í faginu. Nú er hann með 659 kr. á tímann, sem er undir lágmarkslaunum.

Fram kom hjá starfsmönnunum að þó svo að þau ynnu meira en 173 tíma í mánuði og jafnvel upp í 300 tíma á mánuði þá fengu þau einungis greidd dagvinnulaun og vaktarálag, en ekki yfirvinnu eins og ber að gera eftir að starfsmaðurinn hefur uppfyllt dagvinnuskyldu sína.

Vefsíða Verkalýðsfélags Akraness

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert