Forseti borgarstjórnar fer yfir sætaskiptin

Ólafur F. Magnússon stýrir fundi borgarstjórnar.
Ólafur F. Magnússon stýrir fundi borgarstjórnar. mbl.is/RAX

Ólafur F. Magnússon, forseti borgarstjórnar, kveðst ætla að taka umræðuna um tíð sætaskipti á fundum til athugunar. „Ég er ekki tilbúinn að tjá mig frekar um málið að svo stöddu enda hef ég einungis stjórnað tveimur borgarstjórnarfundum nú."

Greint var frá því í 24 stundum í gær að á einu ári hefðu verið inntar af hendi um 100 greiðslur til varaborgarfulltrúa sem ekki eru á föstum launum vegna fundarsetu í borgarstjórn. Átta voru kallaðir á fund þann 4. desember.

„Formenn nefnda sem geta verið varaborgarfulltrúar þurfa að gera grein fyrir fjárhagsáætlun sinna nefnda á þessum fundi," segir Ólafur. Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði tíð sætaskipti kunna að hafa verið vegna þreytu.

Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar, sagði suma hafa verið ansi þreytta. Auk þess væri hefð fyrir því að fólk gæti skroppið af aðalfundi til að taka í spil með fjármáladeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert