Bjarni Fel: Eiður veldur ekki leiðtogahlutverkinu

Bjarni Fel. les fréttir.
Bjarni Fel. les fréttir. mbl.is/Ómar

Þeir eru ekki margir eftir eins og Bjarni Felixson íþróttafréttamaður. Áhugi hans á íþróttum og knattspyrnu sérstaklega er slíkur að enn þann dag í dag flytur hann fréttir af líðandi stund þó að kominn sé á eftirlaun. Hann segist fjarri því að vera að missa áhugann hvorki á boltanum né að flytja af honum fréttir og prísar sig sælan að yfirmenn Ríkisútvarpsins hafi gert við hann sérsamning um að halda áfram störfum sínum að hluta.

Bjarni ræðir ferli sinn í viðtali við 24 stundir, boltann hér heima og karlalandsliðið. „Hér heima eru peningamennirnir ekki orðnir jafn áberandi en engu að síður snýst boltinn mikið um peninga og styrki og auglýsingar og boltinn ber keim af því. Hvað landsliðið varðar hefur það staðið sig mjög illa. Ástæðurnar tel ég vera val á leikmönnum og sáran skort á leiðtoga í liðið. Eiður Smári finnst mér ekki valda því hlutverki en einnig finnst mér alltaf undarlegt hvaða áhersla er lögð á að kalla inn í landsliðið stráka sem spila annars staðar á Norðurlöndunum. Fótboltinn þar er ekkert mikið betri en hann er hér heima að mínu viti og ég sakna þess að ekki séu reyndir strákar sem sprikla með liðunum hér í efstu deild."

Bjarni starfar enn hjá RÚV og rödd hans heyrist enn í útvarpinu á morgnana. Hann segist aldrei á ferlinum hafa fengið leiða á starfinu og finni ekkert slíkt enn. „Á venjulegum degi vakna ég sex og fer upp í útvarp þar sem ég er til tíu. Þaðan dríf ég mig í sundleikfimi í Vesturbæjarlauginni og eftir hádegi set ég fréttir inn á netið en geri það heiman frá. Mér finnst þetta gaman og hef aldrei upplifað þreytu eða leiðindi í starfinu."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert