Kaupmáttur jókst um 71% milli 1990 og 2007

Kaupmáttur umsaminna lágmarkslauna jókst um 71% milli áranna 1990 og 2007 samkvæmt útreikningum Samtaka atvinnulífsins. Á tímabilinu 1990-2000 jókst kaupmáttur lágmarkslauna um 45% og um rúm 18% á tímabilinu 2000 til 2007.

SA segja, að launahækkanir á Íslandi hafi verið mun meiri undanfarin ár en gerist meðal nálægra þjóða. Það þurfi öflugt atvinnulíf til að greiða há laun og ástæða sé til að óska Íslendingum til hamingju með árangur liðinna ára. Nú séu hins vegar blikur á lofti. Verðbólga hafi verið allt of mikil undanfarið og mikilvægt að hemja hana sem fyrst þar sem hún hafi skaðleg áhrif á heimili og fyrirtæki.

SA segja á heimasíðu sinni, að reynslan sýni að miklar launahækkanir leiði ekki til betri kjara. Á árunum 1980-1990 hafi laun t.d. hækkað um 1434% en kaupmáttur rýrnaði um 15% á sama tíma. 

Samtök atvinnulífsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert