Álíka margir hlynntir og andvígir aðskilnaði ríkis og kirkju

Dómkirkjan í Reykjavík.
Dómkirkjan í Reykjavík.

Þjóðin skiptist í tvær  fylkingar þegar hún er spurð um afstöðu til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Fram kemur í Þjóðarpúlsi Gallup, að naumur meirihluti, eða 51% er hlynntur aðskilnaði en 49% eru andvíg.

Mun færri eru hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju en síðast þegar þetta var kannað hjá Gallup, árið 2005. Þá voru 66% hlynnt aðskilnaði, en um þriðjungur andvígur. Jafnframt er þetta lægsta hlutfall þeirra sem eru hlynntir aðskilnaði frá því  Gallup spurði þessarar spurningar fyrst árið 1994.

Þegar svör allra eru tekin með eru tæplega 45% hlynnt, 43% andvíg og ríflega 12% hvorki hlynnt né andvíg aðskilnaðinum.

Mun fleiri taka afstöðu nú heldur en í síðustu könnun. Sem fyrr eru karlar hlynntari aðskilnaði en konur, höfuðborgarbúar vilja frekar aðskilnað en íbúar landsbyggðarinnar og yngri svarendur eru hlynntar i aðskilnaði en þeir eldri. Þeir sem hafa meiri menntun aðhyllast fremur aðskilnað en þeir sem minni menntun hafa.

Mesta andstöðu við aðskilnað ríkis og kirkju er að finna meðal þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn, en fylgismenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru hlynntastir aðskilnaði. Mótmælendur eða þeir sem eru í Þjóðkirkjunni eru nokkuð klofnir í afstöðu sinni, en ívið fleiri eða 54% þeirra eru andvígir aðskilnaði. Meiri andstöðu er að finna innan annarra kristinna safnaða en þeir sem eru utan trúfélaga eru almennt hlynntir aðskilnaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert