Farþegum boðin áfallahjálp

Farþegum um borð í þotu Icelandair sem varð frá að hverfa vegna veðurs eftir tvær lendingartilraunir á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi var boðin áfallahjálp og læknisaðstoð er vélin lenti á Egilsstaðaflugvelli klukkan fjögur í nótt. Mjög hvasst var í Keflavík í gærkvöldi og sviptvindasamt.

Flugvélin var að koma frá Las Palmas í leiguflugi fyrir Úrval-Útsýn með 189 farþega um borð.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði að áður en vélin lenti á Egilsstöðum hafi áhöfnin óskað eftir því að læknisaðstoð og áfallahjálp yrði til reiðu fyrir farþegana.

Um 50 farþegar ákváðu að fara ekki með vélinni til Keflavíkur klukkan fjögur í nótt heldur dvelja áfram á Egilsstöðum og jafna sig.

Að sögn farþega sem var um borð í vélinni greip mikil skelfing um sig meðal farþega við lendingartilraunirnar á Keflavíkarflugvelli.

Segir hann að þotan hafi verið komin nálægt því að lenda í bæði skiptin sem hætt var við lendingu og henni snúið til lofts að nýju. Við það skapaðist nokkur ótti meðal farþega.

Ákváðu einhverjir farþeganna að koma sér sjálfir heim frá Egilsstöðum þar sem þeir treystu sér ekki í aðra flugferð þrátt fyrir að eiga bifreiðar á Keflavíkurflugvelli eða í Reykjavík. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert