Dómsmálaráðherra skilar rökstuðningi fyrir ráðningu

Þorsteinn Davíðsson.
Þorsteinn Davíðsson.

Guðmundur Kristjánsson, lögmaður og umsækjandi um embætti dómara við héraðsdóm norðurlands eystra, gefur lítið fyrir rökstuðning ráðherra fyrir skipan Þorsteins Davíðssonar í embættið, sem barst í morgun. Fram kom í fréttum Útvarpsins í dag, að Guðmundur hyggst kvarta til umboðsmanns Alþingis.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og settur dómsmálaráðherra, skipaði Þorstein Davíðsson, dómara við héraðsdóm Norðurlands eystra rétt fyrir jól. Tveir umsækjendanna, Pétur Dam Leifsson og Guðmundur Kristjánsson, óskuðu eftir rökstuðningi ráðherra og hefur sá rökstuðningur nú borist.

Fram kom í fréttum Útvarpsins, að ráðherra segi að fjölbreytt reynsla Þorsteins og þekking, ekki síst vegna starfa sem aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, um rúmlega 4 ára skeið, geri hann hæfastan umsækjenda um embætti dómara. Í því starfi hafi hann öðlast reynslu af stjórnun og skipulagningu starfa, það hafi jafnframt reynt á allar hliðar lögfræði, stjórnsýslurétt, löggjafarstarf, stjórnun ráðuneytis, fjárreiður ríkissjóðs og einstakra stofnana og krafist samskipta við ótal aðila innlenda sem erlenda.

Um önnur störf Þorsteins, sem aðstoðarmanns dómara og nú síðast sem aðstoðarsaksóknara og deildarstjóra við embætti lögreglustjórans í Reykjavík segir að hann hafi á 8 ára löngum starfsferli sínum hlotið ágæta þekkingu á íslensku réttarfari og góða innsýn í iðkun þess. Jafnframt er tekið fram í rökstuðningi ráðherra að Þorsteinn hafi gegnt veigamiklum nefndarstörfum á vegum hins opinbera. Meðal annars í samstarfshópi um löggæslumál í Reykjavík, í innflytjendaráði og flóttamannaráði og frá því í júní, síðastliðnum, sem varamaður í yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis norður vegna alþingiskosninga. Hann sitji jafnframt í dómnefnd Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar og hafi víðtæka reynslu af félagsstörfum.

Þá sé hann ágætur íslenskumaður, eigi auðvelt með að setja fram skýran lögfræðilegan texta og hafi góðan hæfileika til að greina aðalatriði frá aukaatriðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert