Samið um lagningu nýs sæstrengs

Eitt af kapalskipum Tyco Telecommunications.
Eitt af kapalskipum Tyco Telecommunications.

Eignarhaldsfélagið Farice og bandaríska fyrirtækið Tyco Telecommunications hafa skrifað undir samning um hönnun, framleiðslu og lagningu ljósleiðarasæstrengs sem lagður verður frá Landeyjum til Blåbjerg á vesturströnd Danmerkur.  Áætlað er að lokið verði við að leggja strenginn í árslok.

Sæstrengurinn, sem verður um 2250 km langur, hefur hlotið vinnuheitið DANICE og segir Farice að strengurinn muni auka öryggi útlandasambanda verulega auk þess að flytja fjarskiptaumferð netþjónabúa sem áformað er að byggja hérlendis.

Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Farice, segir í tilkynningu að nýi sæstrengurinn muni gera félaginu kleift að reka fjarskiptasambönd til útlanda með miklu meira afhendingaröryggi en hingað til hafi verið hægt og áætlað sé að reka báða sæstrengina, FARICE og DANICE í eins konar hringkerfi sem auki gæði þjónustunnar verulega.

Í DANICE sæstrengnum verða fjögur ljósleiðapör, sem hvert um sig getur flutt 128 10 Gbit/s bylgjur, þ.e. samtals 1280 Gbit/s, og því er mesta afkastageta sæstrengsins rúmlega 5000 Gbit/s. Til samanburðar má nefna að afkastageta FARICE-1 sæstrengsins er 720 Gbit/s.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert