Ráðist á lögreglumenn

mbl.is/Júlíus

Ráðist var á óeinkennisklædda lögreglumenn sem voru við störf á Laugavegi um kl. eitt í nótt. Lögreglumennirnir voru við fíkniefnaeftirlit þegar a.m.k fimm karlar veittust að þeim. Tveir lögreglumenn voru fluttir með sjúkrabíl á sjúkrahús. Annar þeirra hlaut þungt höfuðhögg. Fjórir voru handteknir.

Að sögn lögreglu voru högg og spörk látin dynja á lögreglumönnunum. Þrátt fyrir tilkynningu um að þarna væri lögregluaðgerð þá kom til mikilla átaka. Einn lögreglumannanna hlaut þungt höfuðhögg. Lögreglumaðurinn liggur enn á slysadeild. Alls fóru fjórir lögreglumenn á sjúkrahús, en tveir þeirra hlutu minniháttar meiðsl.

Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tengjast árásarmennirnir ekki eftirlitsaðgerðum fíkniefnalögreglunnar á Laugavegi. Hún segir árásarmennina hafa verið á ferðinni þegar þeir urðu óvænt varir við lögreglumennina með fyrrgreindum afleiðingum. 

Kallað var eftir aðstoð og handtók lögreglan þrjá erlenda karlmenn og eina íslenska stúlku. Stúlkunni var sleppt eftir skýrslutöku í nótt. Karlmennirnir gista nú fangageymslur. 

Tveir mannanna, sem eru í haldi, hafa áður komið við sögu vegna ofbeldisverka, þ.á.m. fyrir að hafa ráðist á lögreglumenn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert