Tugir verslana gætu horfið

Gunnar Guðjónsson og Borghildur Símonardóttir.
Gunnar Guðjónsson og Borghildur Símonardóttir. Árvakur/RAX

„Númer eitt, tvö og þrjú er að ef sú uppbygging sem lofað hefur verið fer ekki af stað í miðbænum þá fara tugir verslana burt,“ segir Gunnar Guðjónsson, kaupmaður í miðbæ Reykjavíkur, en hann hefur ásamt Borghildi Símonardóttur kaupmanni hafið undirskriftasöfnun þar sem hvatt er til að húsin við Laugaveg 4-6 víki.

Gunnar segist vilja tala um uppbyggingu frekar en niðurrif og segir uppbyggingu verða að eiga sér stað í miðbænum en í því felist að sum hús þurfi að víkja. Með því megi ná betra nýtingarhlutfalli á lóðunum og fá betri verslunarrými. „Við eigum ekki að hræðast nútímann, fólk þarf að þekkja vitjunartíma ákveðinna húsa og við þurfum líka að skapa okkar eigin menningarsögu,“ segir hann.

Tilfinningasemi Torfunnar

„Torfusamtökin eru ekki hagsmunasamtök í miðbænum, þetta fólk stjórnast af tilfinningasemi en ekki hagsmunum,“ segir Gunnar og bætir því við að dæmin erlendis frá séu mjög mismunandi, til að mynda sé nýjasta húsið á Strikinu í Kaupmannahöfn í byggingu núna. „Það er samt ekki eins og borgin missi nokkurn sjarma við það.“ Hann bætir því við að kaupmenn séu orðnir langþreyttir á ástandinu. „Ég er í viðskiptum, ekki góðgerðarstarfsemi og mér er umhugað um að hér aukist verslunarrými.“

Gunnar segir eftir því tekið að þekktar erlendar verslunarkeðjur sæki síður í miðborgina og hann óttast hnignun hennar.

Vill kvaðir á húseigendur

„Það er aldrei leitað eftir áliti verslunareigenda og rekstraraðila í miðbænum varðandi það hvernig þeir vilji sjá miðbæinn,“ segir Borghildur. Hún vill sjá kvaðir á eigendum húsa við Laugaveg þess efnis að þeir haldi við húsunum sínum en fái annars sektir. Hún nefnir dæmi af Laugavegi 74. „Þar er búið að flytja burt hús, eftir stendur ógeðslegur grunnur og ekki útlit fyrir uppbyggingu í bráð.“ Hnignun borgarinnar þýði að verslanir fari og vafasöm starfsemi komi í staðinn.

Laugavegur 4-6.
Laugavegur 4-6. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert