„Sýnir sterka stöðu fráfarandi meirihluta"

Frá borgarstjórnarfundinum í dag.
Frá borgarstjórnarfundinum í dag. Árvakur/Ómar

Hávær mótmæli ungliðahreyfinga Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og ungra stuðningsmanna Margrétar Sverrisdóttir sýna sterka samstöðu fráfarandi meirihluta að sögn Önnu Pálu Sverrisdóttur, formanns Ungra jafnaðarmanna.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ungliðahreyfingarnar höfum náð að taka höndum saman, það sýnir hvað það er sterk samstaða í núverandi meirihluta, sem á að rífa frá völdum á eftir."

Ungliðahreyfingar „Tjarnarkvartettsins" gengu um bæinn með gjallarhorn í morgun og segst Anna Pála hafa fundið fyrir miklum hita meðal fólks og reiði.

Anna Pála segir meirihlutann sem við tekur í dag vera óstarfhæfan og að það sé krafa hópsins að hætt verði við myndun meirihlutans.

Mótmælendur höfðu enda hátt við ráðhúsið í hádeginu og hrópuðu „hættið við" og létu sírenur hljóma. Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, uppskar mikið lófatak er hann kom til ráðhússins og fylgdu mótmælendurnir honum á fund borgarstjórnar.

Anna Pála segir að réttast hefði verið að boða til kosninga, en að það sé ekki hægt samkvæmt lögum. Hún segist ekki vera viss um að það ætti að breyta sveitarstjórnarlögunum,  af því  það þurfi að hugsa þetta í samhengi við landið allt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert