Vilja láta útvarpa frá Alþingi

mbl.is/Arnaldur

Tíu þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að hafinn verði undirbúningur þess að útvarpa þingfundum beint um allt land á sérstakri útvarpsrás. Stefnt verði að því að útvarp frá Alþingi hefjist ekki síðar en þegar þing kemur saman haustið 2008.

Kolbrún Halldórsdóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Segir í greinargerð að enginn vafi sé á, að beint útvarp frá þingfundum mundi gera stærstum hluta landsmanna kleift að fylgjast með. Útvarpstæki séu mjög víða og mun auðveldara að fylgjast með útsendingum í hljóðvarpi en sjónvarpi á meðan öðrum verkefnum er sinnt.

Það sé því mat flutningsmanna að beinar útvarpssendingar frá Alþingi ættu að vera sjálfsagður hlutur í nútímalýðræðisþjóðfélagi, á öld upplýsinga og fjölmiðlunar. Þær væru og í anda fyrri málsliðar 57. gr. stjórnarskrárinnar um að fundir Alþingis skuli haldnir „í heyranda hljóði“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert